fimmtudagur, 15. september 2016

The Little Book of Hygge eftir Meik Wiking

Ritdómur: The Little Book of Hygge eftir Meik Wiking · Lísa Hjalt


Um helgina eignaðist ég bókina The Little Book of Hygge: The Danish Way to Live Well sem fjallar um danska hugtakið „hygge“. Höfundur er Meik Wiking hjá The Happiness Research Institute í Kaupmannahöfn, en hans starf felst í því að rannsaka hvað gerir fólk hamingjusamt. Penguin annaðist útgáfu bókarinnar sem er í þægilegu og ekki of stóru broti, sem gerir hana nokkuð þykka, 288 bls. Hún er auðlesanleg og ansi skemmtileg, og ekki spillir fyrir að hún er fallega hönnuð, rík af teikningum af skandinavískum mótífum og ljósmyndum. Wiking útskýrir vel hugmyndina um hygge og hvernig Danir, sem mælast hamingjusamastir allra þjóða, kunna þá list að skapa einstaklega notalegt andrúmsloft. Máli sínu til stuðnings vísar hann í kannanir og notast við gröf, en bókin verður aldrei þurr og fræðilegur lestur heldur er textinn á léttu nótunum og það er stutt í kímnina.

Mér fannst við hæfi að skapa hygge áður en ég settist niður til að segja ykkur nánar frá bókinni: ég gerði heitt súkkulaði með rjóma, smurði rúnstykki og kveikti upp í arninum.


Líklega er óþarft að útskýra hygge fyrir Íslendingum; ég held að við séum nokkuð vel að okkur um danska menningu og vitum hvað orðið stendur fyrir - ætli við myndum ekki flest tala um að gera kósí þó að það orð nái ekki alveg yfir hugtakið. En gefum samt Wiking orðið:
Hygge is about an atmosphere and an experience, rather than about things. It is about being with the people we love. A feeling of home. A feeling that we are safe, that we are shielded from the world and allow ourselves to let our guard down. (bls. 6)
Flestir Danir tengja hygge við haustið og veturinn en hugtakið nær líka yfir hlýrri mánuðina. Mér finnst athyglisvert að Wiking ber saman Dani og Hollendinga, sem eiga svipað hugtak sem þeir kalla „gezelligheid“. Munurinn er þó sá að meirihluti Dana tengir hygge við inniveru á meðan meirihluti Hollendinga tengir það við að fara út, á kaffihús, bari og slíkt.

Nú hef ég búið í Danmörku og á þaðan góðar minningar, auk þess rennur danskt blóð í æðum mínum; ég átti danska langömmu í einn ættlegg og danskan langalangafa í annan. Ég verð þó oft vör við að útlendingar líta á Danmörku sem einhvers konar útópíu og halda að landið sé laust við þau félagslegu vandamál sem ríkja annars staðar. Ég var ánægð að sjá að Wiking kemur inn á þennan punkt í bókinni. En það ríkir ákveðin samkennd í Danmörku sem ég kann ekki alveg að útskýra og velferð borgaranna skiptir máli.



En hvernig skapa Danir hygge og hvað gerir þá hamingjusama? Wiking tekur fyrir marga þætti eins og hugguleg heimili og samveru; að bjóða vinum heim til að eiga notalega stund með mat og drykk. Kertaljós og rétt lýsing skipta sköpum en 85% Dana tengja saman kerti og hygge. Jólamánuðurinn er einstaklega hyggelig. Eftir búsetu í mörgum löndum er ég þeirrar skoðunar að engin þjóð kann betur að skapa jólastemningu en Danir. Kaupmannahöfn er draumaborgin mín í desember og það jafnast fátt á við að rölta um steinlögð stræti borgarinnar, sjá öll kertin í gluggunum og upplifa jólaandann sem ríkir yfir öllu. Einn kaflinn í bók Wiking fjallar einmitt um jólin og matarhefðirnar og í því sambandi nefnir hann risalamande, sem er ein af okkar jólahefðum. Ég hef þegar deilt uppskrift að hinum danska möndlugraut með kirsuberjasósu.

Eitt atriði í bókinni vakti athygli mína því það er eitthvað sem ég hef hugsað út í sjálf. Wiking vísar í könnun sem sýnir að þakklæti hefur áhrif á lífshamingju. Niðurstöður sýna að það að vera þakklátur eykur ekki bara lífshamingjuna heldur leiðir til þess að við erum hjálpsamari, eigum auðveldara með að fyrirgefa og efnishyggja verður ekki allsráðandi (bls. 280). Um hygge og þakklæti hefur Wiking þetta að segja:
Hygge may help us to be grateful for the everyday because it is all about savouring simple pleasures. Hygge is making the most of the moment, but hygge is also a way of planning for and preserving happiness. Danes plan for hyggelige times and reminisce about them afterwards. (bls. 281)
Ritdómur: The Little Book of Hygge eftir Meik Wiking · Lísa Hjalt


Við lestur bókarinnar sannfærðist ég um það að daglegt líf mitt er heldur betur fullt af hygge - sem er mér kannski í blóð borið - en ef ég á að minnast á eitthvað eitt sem ég geri á hverjum einasta degi þá er það gott kaffi og bóklestur. Það fer bara eftir skapi hverju sinni hvaða hygge-horn í húsinu verður fyrir valinu.

Ef ykkur finnst vanta hygge í lífið þá mæli ég eindregið með lestri bókarinnar. Hún er full af hugmyndum.

The Little Book of Hygge: The Danish Way to Live Well
Höf. Meik Wiking
Penguin Life
Innbundin, 288 blaðsíður, myndskreytt
Kaupa



Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.